1000 ára afmæli Njáluloka.

1000 ára afmæli Njáluloka.

Jakob las Njálu á 15 klukkustundum og 38 mínútum.

1000 ára afmæli Njáluloka var haldið hátíðlegt í Sögusetrinu á Hvolsvelli um helgina. Jakob S. Jónsson leikstjóri og leiðsögumaður las Njálu alla og tók lesturinn (með 5 mínútna hléi á hverjum hálftíma) 15 klukkustundir og 38 mínútur; lauk kl. 02:38 á sunnudagsmorgni, og fögnuðu þá á þriðja tug áhorfenda – þeir sem haldið höfðu út til enda – lesaranum og eldraun hans innilega. Áhorfandi á fyrsta bekk hafði á orði að nú fyrst hefði hann skilið Njálu, hefði þó sjálfur lesið hana þrisvar í hljóði.

 

 

 

Jakob S. Jónsson leikstjóri og leiðsögumaður les Njálu frá upphafi til enda í Sögusetrinu á Hvolsvelli – og tvö af handritum sögunnar verða þar til sýnis.Jakob za web

Í tilefni þess að nú eru rétt eitt þúsund ár frá síðasta atburði Brennu-Njálssögu verður haldin Njálulokahátíð í Sögusetrinu á Hvolsvelli helgina 7. og 8. nóvember. Jakob S. Jónsson mun lesa alla Njálu í Söguskálanum í Sögusetrinu og hefst lesturinn laugardaginn 7. nóvember kl. 11:00 árdegis. Lestrinum lýkur (ef að líkum lætur)um 20 klukkustundum síðar, eða snemma á sunnudagsmorgni. Jakob mun lesa bókina samkvæmt reglum Heimsmetabókar Guinness um heimsmetstilraun í þindarlausum sögulestri. Það þýðir að Jakob fær aðeins fimm mínútna hvíld á hverjum hálftíma til að næra sig og smyrja raddböndin. Reglunum verður fylgt í hvívetna: aldrei lengra hlé. Ekki verður þó um formlega heimsmetstilraun að ræða að þessu sinni . Ekki er vitað til þess að Njála hafi áður verið lesin í heild sinni frammi fyrir áhorfendum af einum lesara – a.m.k. ekki öldum saman. Tvö af handritum Njálu verða til sýnis í Sögusetrinu tiltekinn tíma á laugardeginum (nánari tímasetning síðar). Handritin eru varðveitt í Árnastofnun í Reykjavík og verða flutt austur í lögreglufylgd ásamt tveimur starfsmönnum Árnastofnunar sem vaka munu yfir þeim. Þetta er einstakur atburður: Aldrei áður hefur upprunalegt Njáluhandrit verið til sýnis á Njáluslóðum … a.m.k. ekki í nokkrar aldir.

Njálurefill.jpg web

Setrið verður opið allan tímann meðan á lestri stendur … og þá ekki síst REFILSTOFAN. Þar verður starfsmaður á vakt og sauma-maraþon sólarhringinn á enda. Refillinn er nú rétt hálfnaður: 45 metrar að baki. Öllum velkomið að taka sporið. Í myndlistarsalnum Gallerí Ormi hefur nú verið opnuð sýningin Þetta vilja börnin sjá! – farandsýning frá Gerðubergi með myndskreytingum valinna barnabóka síðasta árs. Sýningin verður opin meðan á lestri stendur og í salnum verða á laugardeginum frá kl. 11:00 félagar í samtökunum „Hugverk í heimabyggð“ og vinna að þjóðlegu handverki og list.

55 Gunnar Hámundarson.jpg web50 Hallgerður langbrók.jpg web

Veitingar í boði.  Aðgangur ókeypis.

Viðburðurinn er styrktur af Menningarráði Suðurlands og sveitarfélaginu Rangárþingi eystra.