List í heraði 4.október

Þann 4. október  kl. 16:00 til 17:00 var opnunarhátíð  Listar í héraði í Gallerý Ormi, Sögusetrinu á Hvolsvelli.
List í héraði er myndlistarsýning þar sem 10 einstaklingar úr Rangárþingi, sem eiga það sameiginlegt að hafa gaman af því að mála, koma saman og sýna verk sín.

List í héraði er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af hópnum sem sýnir afrakstur sinn.

  

Björk Arnardóttir fædd 1977 fædd og uppalin á Ísafirð en með sterkar rætur héðan af svæðinu. Björk hefur alltaf þótt gaman að skapa, teikna og mála sér til gagns og gamans en hefur aldrei sótt formlega menntun á því sviði. Björk hefur mest verið að teikna tækifæriskort en hefur gaman af að gera tilraunir með myndform og liti en á þessari sýningu hafa vatnslitir orðið fyrir valinu. Þemað að þessu sinni eru þjóðsögur sem eru bæði skemmtilegar og lýsandi í fjölbreytileika sínum og rótbundnar í íslenskri menningu.

 

Elsa Þorbjörg Árnadóttir, f.1946 er uppalin og bjó til 1991 í Húsey í Hróarstungu N-Múl. Alla æfi dreymdi Elsu um að verða silfursmiður, sumir draumar rætast seint,aðrir ekki. Hún sótti tvö stutt námskeið í silfursmíði hjá Davíð Jóhannssyni í gegnum Fræðslunet Suðurlands en þau urðu ekki fleiri þannig að næst var herjað á olíumálun á striga með spaða og fingrum  hjá Tobbu, í gegnum Fræðslunetið. Fyrir síðustu jól var svo hafist handa og prufur  gerðar til jólagjafa en það gleymdist að hætta og þessvegna er ég hér með fyrstu myndirnar mínar.

 

Guðrún Ósk Jóhannsóttir er fædd 1967 og er úr Flóanum. Hún er búsett í Markaskarði Rangárþing-Estra. Guðrún hefur sótt 2 námskeið hjá kennara 2013 í myndlist en hefur aðalega verið í   ýmislegu handverki.Þetta er  í fyrsta sinn sem hún sýnir málaðar myndir eftir sig.

 

Kristín Erna Leifsdóttir frá Nýjabæ. Stína Leifs eins og allir kalla hana flutti á Hvolsvöll 1985 og hefur búið þar síðan að frátöldum 6 árum sem hún bjó á Snæfellsnesi.Hún hóf  listamannaferil sinn á veggjunum í Nýjabæ með vaxlitum við lítinn fögnuð foreldranna.Hún hefur farið á nokkur námskeið og hefur alltaf haft gaman af að mála.

 

Dóra er ættuð úr Húnavatnssýslu en er búsett núna á Hvolsvelli. Henni er mjög hugleikin litaflóra íslenskrar náttúru í verkum sínum. Málar mest í olíu.

 

Stefanía Ósk Stefánsdóttir er fædd 1962 í Beinárgerði í Vallahreppi. Varð stúdent frá Menntaskólanum Egilsstöðum 1982. Dvaldi erlendis meðal annars á Ítalíu, lærði ensku við Háskóla Íslands og var um nokkra ára skeið enskukennari við ýmsa skóla á Suðurlandi. Stefanía hefur sótt nokkur námskeið í myndlist.

 

Justyna Broniszewska er fædd 1983. Hún hefur búið á Íslandi siðustu 8 ár. Hún hefur verið að mála og teikna síðan hún var 5 ára.

 

Guðrún Ósk Aðalsteindóttir er fædd 1992 og ólst upp á Hvammstanga. Hún býr núna á Hvolsvelli og hefur teiknað alla sína ævi. Guðrún er búin að fara í listaáfanga í FSU og einnig hefur hún farið á myndlistanámskeið.

 

Haraldur Pálsson er fæddur á Siglufirði 1965. Vinnur í Húsasmiðjunni. Er oftast kallaður Halli Páls ekki Nonni.

 

Brynja Bergsveinsdóttir er fædd 1947 og ólst upp í Kópavogi en hefur búið í Rangárþingi frá 1965, hún er lærður tækniteiknari og hefur unnið við það. Brynja hefur sótt ýmis námskeið í gegnum tíðina og mest unnið með akrílliti. Fékk tilsögn í módelteikningu hjá Sigurði Grétari Guðmundssyni og í akrílmálun hjá Hörpu Björnsdóttur. Á Hvolsvelli fékk hún tilsögn hjá systrunum Katrínu og Sigrúnu Jónsdætrum (Jónda í Lambey) og tilsögn í vatnslitun hjá Katrínu Briem. Sýnikennslu í olíumálun  hjá Sólrúnu Björk Benediktsdóttur og Þorbjörgu Óskarsdóttur   (Tobba listamaður) sem leiðbeindi  með handmálun og spaða. Myndirnar spanna ca. 15 ára tímabil og  bera keim af þessum námskeiðum s.s. uppstillingum og leiðsögn kennara.