Tvær gestasýningar í Sögusetrinu

 

Tvær gestasýningar í Sögusetrinu. Báðar sýningarnar eru ætlaðar börnum á leikskólaaðldri og í grunnskóla að 9 – 10 ára aldri.

Laugardaginn 8. nóvember: Langafi prakkari.

Þriðjudaginn 9. desember : Smiður jólasveinanna.

Klukkan 16:00 báða dagana.

 

Langafi prakkari

leikrit eftir Pétur Eggerz

byggt á sögum Sigrúnar Eldjárn.

Leiksýningin Langafi prakkari er á efa vinsælasta sýning Möguleikhússins frá upphafi, en verkið hefur nú verið sýnt um 300 sinnum frá því það var frumsýnt árið 1999. Nú heldur Möguleikhúsið enn af stað með sýninguna til að gefa nýrri kynslóð barna kost á að hitta Langafann uppátækjasama ásamt stelpuskottinu henni Önnu. Sýningin byggir á sögum Sigrúnar Eldjárns um Langafa prakkara sem hafa um árabil notið mikilla vinsælda meðal yngstu lesendanna. Í þessari leikgerð er stuðst við bækurnar Langafi drullumallar og Langafi prakkari.

Í leikritinu segir frá lítilli stúlku, Önnu, og langafa hennar. Þó langafi sé blindur og gamall er hann alltaf tilbúinn að taka þátt í einhverjum skemmtilegum uppátækjum með Önnu litlu. Hann passar hana alltaf á daginn þegar pabbi hennar og mamma eru í vinnunni. Þá hefur hann nægan tíma til að sinna henni og þau gera ýmislegt skemmtilegt saman. Þau skoða mannlífið, baka drullukökur, veiða langömmur og fleira. Þetta er enginn venjulegur langafi …

Langafi og Anna eru leikin af þeim Pétri Eggerz og Rósu Ásgeirsdóttur, leikstjóri Pétur Eggerz, búninga gerir Katrín Þorvaldsdóttir, leikmynd er eftir leikhópinn og tónlist er gerði Vilhjálmur Guðjónsson.

 

 

 

Smiður jólasveinanna

eftir Pétur Eggerz

Hátt upp til fjalla situr Völundur gamli í litla kofanum sínum. Völundur er smiðurinn sem sér um að smíða allar gjafirnar sem jólasveinarnir færa börnunum á jólunum. Eftir að síðustu sveinarnir eru farnir til byggða er einmanalegt í kotinu. Þá birtast óvæntir gestir, tröllabörnin Þusa og Þrasi sem aldrei hafa heyrt talað um jólin og sjálfur jólakötturinn, sem þorir ekki lengur að fara til byggða. Völundur tekur vel á móti þeim og saman rifja þau upp söguna af fæðingu Jesú. Þeim þykir sagan svo skemmtileg að þau ákveða að leika hana saman.

Smiður jólasveinanna var fyrst sýndur fyrir jólin 1992 og naut þá þegar mikilla vinsælda. Leikritið var síðan gefið út á geisladiski fyrir jólin 1993. Leikstjóri sýningarinnar er Pétur Eggerz, sem einnig hannaði leikmynd ásamt Bjarna Ingvarssyni, tónlist gerði Ingvi Þór Kormáksson og búningahönnuður Helga Rún Pálsdóttir. Leikarar eru ValgeirSkagfjörð, Rósa Ásgeirsdóttir, Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz.