Blótgoðar

LEIKSÝNING í SÖGUSETRINU

BLÓTGOÐAR

Uppistand um heiðingja

Einleikur eftir Þór Tulinius

BLÓTGOÐAR eftir Þór Tulinius í leikstjórn Peters Engkvist Sögusetrinu sunnudaginn 18. mars kl. 16:00 AÐEINS ÞESSI EINA SÝNING. Verð: 3.500,- krónur. Hinn rómaði einleikur Þórs Tulinus sem fluttur hefur verið fyrir fullu húsi í Landnámssetrinu í Borgarnesi undanfarna mánuði. Leiksýningin hefur fengið frábærar viðtökur og einróma lof gagnrýnenda.

Um hvað rifust íslendingar fyrir 1000 árum áður en Icesave og ESB komu til sögunnar? Var Snorri Goði fyrsti jarðfræðingur veraldarsögunnar? Hvað var Þorgeir Ljósvetningagoði að gera allan þennan tíma undir feldinum?Þið fáið svar við þessum spurningum og fleiri í Sögusetrinu á Hvolsvelli á hinum frábæra uppistandseinleik: Blótgoðar!

Miðapantanir í síma 487 8781, njala@njala.is og við innganginn.

Blotgodar

Blótgoðar: Einleikur eftir Þór Tulinius

TÍMI: Sunnudaginn 18. marz kl. 16:oo

Leiksvið: Söguskálinn, Sögusetrinu á Hvolsvelli

Leikari: Þór Tulinius

Leikstjóri: Peter Engkvist

Leikmynd og búningur: Beate Stormo

Framleiðendur: Söguleikhúsið og Svipir ehf. fyrir Landnámssetur í Borgarnesi

Skessuhorn: Kitlar hláturtaugarnar svo undan verkjar“

4 stjörnur í Fréttablaðinu:„Útfærslan var skemmtileg og áhorfendur dilluðu sér af hlátri!“

Spássían: Heildaráhrifin eru kannski fyrst og fremst gleði!“

Tímarit Máls og menningar: „Blótgoðar er góð skemmtun fyrir unga sem aldna!

Sýningin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda víðsjár, skessuhornsins, spássíunnar og fréttablaðsins. elísabet brekkan gaf henni 4 stjörnur í fréttablaðinu og segir m.a. „Útfærslan var skemmtileg og áhorfendur dilluðu sér af hlátri. niðurstaða: Þór nýtur sín í þessu hlutverki og er alveg óhætt að mæla með enn einu fræðandi og skemmtilegu stefnumóti við forna kappa uppi í borgarnesi.“
Þorgeir Tryggvason segir í spássíunni: „Heildaráhrifin eru kannski fyrst og fremst gleði. gleði yfir að hafa verið á svona ljómandi skemmtilegri leiksýningu þar sem var unnið á svona heiðarlegan og fallegan hátt úr efniviði sem svo auðveldlega hefði getað kallað á rembing.”
Kristján S Bjarnason segir í skessuhorni: Kitlar hláturtaugarnar svo undan verkjar“
Silja Aðalsteinsdóttir segir í TMM: „Blótgoðar er góð skemmtun fyrir unga sem aldna og varpar óvæntu ljósi á ýmsa þætti þessarar alkunnu sögu. En eins og margar fyrri sýningar í Landnámssetrinu er hún beinlínis skyldusýning fyrir skólafólk sem þarna getur séð hvers konar fjársjóður þessar gömlu bækur eru fyrir skapandi listamenn. “

-BLÓTGOÐAR-

Uppistand um heiðingja

Landnámssetrið í Borgarnesi fagnar nú fimm ára afmæli sínu og flytur af því tilefni glænýjan einleik um hinn forna sið sem landnámsfólkið aðhylltist, en “land var alheiðið nær hundraði vetra”, segir í Landnámu. Í Einleiknum, BLÓTGOÐAR  lifnar hugarheimur íslendinga fyrir kristnitöku við í flutningi leikarans sem bregður sér í líki margra sögufrægra persona, svo sem Snorra Goða, Þorgeirs Ljósvetningagoða, Síðu-Halls, Finnboga Ramma og svo annarra minna þekktra, hverra orðstír lifði ekki eins glatt og má þar nefna Finn hinn draumspaka, þrælinn Skinna, Mjald hinn finnska og Sólveigu Þormóðsdóttur , Þorkelssonar, Þorsteinssonar, Ingólfssonar, Arnarsonar, sem þá þótti fegurst fljóða. Sögusviðið eru Þingvellir þá kristni var lögtekin og leggur Þór út frá þeim orðspöru textum sem við byggjum okkar þekkingu á, svo sem Íslendingabók Ara Fróða en skáldar svo í eyðurnar, sem eru ansi margar. Hver hellti finnan Mjald fullan? Af hverju mistókst norsku leyniskyttunum að myrða Lögsögumanninn? Hvað gerðist undir feldinum? Hvernig gengur hinum nýskírðu að hætta að sjá gamla góða huldufólkið? Það eru tvö ár síðan Þór byrjaði að sanka að sér heimildum um gömlu heiðnina með það að markmiði að skilja betur þessa fornu trú og freista þess að fá botn í það hvort forfeður okkar hafi verið heitir blótmenn eða hvort trú þeirra hafi verið farin að kulna. Niðurstaða hans er á þann veg að trúarlíf hafi verið sprelllifandi og fjörugt fyrir innreið kristninnar hér á landi og mjög litskrúðugt! Höfundur tekur því efnið alvarlega og vonast til að áhorfendur fái sannverðuga tilfinningu fyrir því hvernig trúarheimur landnámsfólksins var í reynd. Þór hefur sér til fulltingis hinn sænska Peter Engkvist. sem er einstaklega fær leikstjóri, og hefur sérhæft sig á sviði þess háttar einleikja, sem hér um ræðir. Nægir þar að nefna, Hamlet, en stand-up, sem sýndur var hér á Listahátíð, og M. Skallagrímsson, sem Bendedikt Erlingsson flutti við opnun Landnámsseturisins, en í þeim verkum báðum var húmorinn alltumlykjandi, þó djúp virðing hafi verið borin fyrir efninu. Leiksýningin er innblásin af sagnamönnum sögualdarinnar sem fóru milli bæja, sögðu frá og skreyttu vel.  Vafalaust hafa þeir notað öll meðul í bókinni til að miðla efninu af krafti og gera stundina ógleymanlega fyrir þá sem á hlýddu. Voru þeir skáld, leikarar eða uppistandarar?

BLÓTGOÐAR – uppistand um heiðingja verður sýnt í Söguskálanum í Sögusetrinu á Hvolsvelli  sunnudaginn 18. marz 2012 kl. 16:00.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.