Guðrún le Sage de Fontenay 12.júlí

Guðrún le Sage de Fontenay

 

Ég lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1989 sem grafískur hönnuður og hef unnið við fagið síðan.

Síðasta sýning mín var á Sólon, Bankastræti  Reykjavík, á olíjumálverkum á striga en áður hef ég haldið sýningu á vatnslitamyndum.

Ég starfa nú á auglýsingastofunni Pipar/TBWA þar sem ég vinn við grafíska hönnun sem er mjög lifandi, skemmtileg og krefjandi. Ég er líka svo heppin að vinna með frábæru og skapandi fólki sem veitir mér innblástur á hverjum degi. Grafísk hönnun er mjög skyld öðrum listgreinum þar sem ávallt þarf að vera að skapa, hugsa út fyrir kassann og finna nýjar leiðir. Starfið snýst um að finna réttu formin og réttu litina til að skapa nýja ásjónu í takt við tíðarandann hverju sinni, þar sem ný form, letur og litir þurfa að mynda heild. Það sem hefur heillað mig mest í vinnu minni sem grafískur hönnuður er hönnun prentgripa svo sem vöru- og firmamerkja sem og heildaútlit fyrir fyrirtæki en þar fær sköpunarþörfin útrás.

Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að skapa og held ég gæti ekki lifað án þess, hvort sem um ræðir að skapa mér fallegt heimili eða vinna við hönnun í sinni víðustu mynd.

Það sem veitir mér innblástur í verk mín er fyrst og fremst íslensk náttúra sem hreyfir við mér hvort sem um ræðir ljósmyndir eða náttúran beint í æð. Rangárþing og náttúran þar hefur óneitanlega mótað mig en ég er upp alin að bænum Útgörðum í Hvolhreppi en þar má sjá fallegan fjallahring og miklar víðáttur, bæði gróið land og sanda. Einnig er ég undir áhrifum frá dvöl minni í Hvítársíðu, Borgarfirði í gegnum árin, á bernskuheimili móður minnar, Kalmanstungu en þar er fjallasýn og allt landslag bæði ævintýralegt og fallegt.

Náttúran er tilviljunarkennd og óútreiknanleg, í raun skipuleg óreiða. Ég vil ekki binda mig ákveðnum formum úr náttúrunni eða ákveðnum stöðum heldur snýst þetta um tilfinningu sem ég reyni að fanga og færa hana inn í stofu til fólks. Ég vil ekki vera með fyrirfram ákveðna hugmynd um útkomu því það getur takmarkað eða heft flæðið. Náttúran er tilviljanakennd og því vil ég skapa tilviljanakennt, leyfa verkinu að ráða för, leyfa tilfinningum og tilviljunum að leiða mig áfram.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.