NÁLA margmiðlunarsýning

Opnun: Þriðjudaginn 5. maí kl. 13:00.
Boðsgestir eru börn af yngsta stigi Hvolsskóla og elsta árgangi leikskólans Arkar.

NÁLA margmiðlunarsýning fyrir börn

Sýningin Nála er byggð á samnefndri barnabók eftir Evu Þengilsdóttur. Bókin, sem kom út hjá Sölku í október 2014, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sagan er óður til íslensks menningararfs og um leið ævintýri um valið milli góðs og ills, stríðs og friðar.
Innblástur sækir höfundur í hið 300 ára gamla Riddarateppi sem varðveitt er á
Þjóðminjasafninu.
Við gerð sýningarinnar var skapandi hugsun og þátttaka höfð að leiðarljósi. Það sem hver og einn gerir hefur áhrif – enginn er of smár til að skipta máli. Með því að taka spor í saumfleka eða snúa kubbi á mynsturborði er búið að breyta sýningunni örlítið og mögulega upplifun þeirra sem á eftir koma. Sýningargestir eru hvattir til að skapa og hafa þannig áhrif á sýninguna, m.a. í gegnum mynsturgerð og saum.

NALA_sogusetrid
Hluti af sýningunni í Sögusetrinu verður ratleikur um húsið og nýr „Nálu-refill“ (ekki Njálu-refill) verður hannaður, teiknaður og litaður af gestum: 90 metra löng pappírsrúlla sem gestir skreyta að vild. Refillinn verður síðan sýndur sérstaklega – sem sjálfstætt myndlistarverk eftir börn.

Sýningin er opin á afgreiðslutíma setursins. Aðgangur er ókeypis.