Náttururmyndir – Hrafnhildur Inga

Náttúrumyndir Hrafnhildar

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir sýnir olíumálverk í Ormi, sýningarsal Sögusetursins 4. ágúst til 30. september 2013. Hún er fædd og uppalin á Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð. Hún býr nú á Sámsstaðabakka á sömu jörð.

Hafnhildur Inga hefur haldið þrettán einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum bæði hér á Íslandi og í útlöndum. Myndir Hrafnhildar eru einkum af íslenskri náttúru og veðurfari, stillur, brimrót, skýjafar, allt í sínum margbreytileika.

Myndirnar eru allar málaðar með olíu á striga. Sjá nánar www.hrafnhilduringa.com

Málverk Hrafnhildar InguMálverk Hrafnhildar InguMálverk Hrafnhildar InguMálverk Hrafnhildar Ingu

 

Artótek

Ég er ekki viss um að forfeður okkar fyrir tugum þúsunda ára hafi kallað það list þegar þeir ristu á hellisveggina fallegar myndir af dýrum.  Þetta var bara bráðin sem þeir veiddu sér og sínum til framfæris. Gæti þetta ekki hafa verið skrásetning,  einskonar myndataka eins og þegar við tökum myndir af okkur sjálfum á árbakkanum  hömpum fallegum laxi eða krjúpum við hlið villibráðar á heiðum uppi. Ég vil miklu frekar tala um list sem leik eða skrásetningu. Allavega lít ég þannig á það sem ég fæst við með því hugarfari.

Það er snúinn leikur að standa frammi fyrir hvítum striga og ætla sér að setja eitthvað þar á sem skiptir mann einhverju máli. Oft fallast manni hendur en ef maður strögglar nógu lengi og stendur við, þá fer eitthvað óútskýranlegt að gerast sem ómögulegt er að lýsa.

Ég mála það sem ég sé og hef séð og geymi innra með mér, hugarfar og tilfinningu, ekkert merkilegt við það heldur er þetta bein túlkun á því sem ég kem ekki frá mér á annan hátt. Sumir skrifa, semja eða bara tala við náungann. Þetta hentar mér betur.

Þetta er skrásetning á veðurfari sem ég horfi á út um gluggann minn eða út um bílrúðuna á ferðalögum eða þegar ég sit við ána horfi á strauminn, hlusta á fossniðinn og bíð eftir að sá stóri taki.

Ég man eftir þeirri gleðitilfinningu sem gagntók mig þegar ég náði því fyrst fram á striganum sem mig langaði til að segja þar. Það var löng leið og brokkgeng sérstaklega vegna þess að ég var ekki búin að finna réttu leiðina og finn hana vonandi aldrei alveg.

Það er endalaust hægt að njóta þess að horfa  á brimið og voldugt skýjafar og það er það sem ég hef reynt að fanga undanfarin ár í málverkinu mínu. Oft er þetta leikur með ljós og skugga en best finnst mér takast til ef maður finnur aflið brjótast um, það er þá sem ég held að skapið og tilfinningarnar streymi  í gegn.

Norrænir listamenn eru með annað eðlisfar en þeir sem búa annarsstaðar, það er eitthvað sem tengist óblíðu veðurfari og birtist allaf, sama hvaða listgrein á í hlut. Þungi, drungi, ofsi, birta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.