Söguskálinn

Söguskálinn er veitinga- og fundasalur í Sögusetrinu og er einstakur í sinni röð.
Hann er nákvæm endurgerð af langhúsunum til forna og þar er auðvelt að hverfa hið minnsta 1000 ár aftur í tímann.

The Saga Hall Dining20130323-IMG_3461Matsalur Sögusetursins

Salurinn er allur innréttaður úr timbri og útskorinn að fornum sið. Meðfram viðamiklum langborðum eru veglegir trébekkir á upphækkuðum pöllum og öndvegi til beggja hliða. Bekkirnir eru klæddir þægilegum hrosshúðum og sauðagærum sem gefa salnum einstakt yfirbragð.
Á upphækkun fyrir enda salarins er nægilegt rými fyrir alls kyns uppákomur; litlar leiksýningar, tónleika, upplestra, uppistand, kynningar og fleira. Skjávarpi er á staðnum og sýningartjald.
Í salnum er bar í sama stíl og skálinn með stóru kolagrilli og snúningsteini yfir eldi. Innaf salnum er fullbúið eldhús. Salurinn hefur vínveitingaleyfi.

Salurinn er kjörinn til að halda hverskonar veislur og fundi og tekur allt að 100 manns í sæti. Bæði er hægt að leigja salinn og eldhúsið í heild (koma með eigin mat og vínföng) og/eða panta þar fullbúnar veislur af öllu tagi; tví- eða þrírétta matarveislur, kaffihlaðborð, smárétti, súpur, brauðmeti, sætabrauð … og raunar hvers kyns borðhald, teiti, gildi, gestaboð og samkvæmi sem starfsfólk Sögusetursins sér um og skipuleggur.

Við hliðina á veitingaskálanum er sýningarsalurinn Gallerí Ormur sem hentar auk myndlistar afar vel til hvers kyns samkvæmisleikja, minni tónleika og dansleikja. Þar er mjög góður hljómburður og einkar vinalegt andrúmsloft.

Fundir, ráðstefnur, málþing, samkomur, samdrykkjur, vörukynningar, afmælisveislur, brúðkaupsveislur, fermingarveislur, skírnarveislur, þorrablót og hvers kyns skemmtanir eiga þarna vel heima auk þess sem Sögusetrið í heild er nánast hinn fullkomni staður til að taka á móti erlendum ferðamönnum – hvert sem tilefnið er.

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.